.comment-link {margin-left:.6em;}

brynjadadda

fimmtudagur, október 27, 2005

Mig langar....

Mig langar til Kaupmannahafnar
Mig langar að hitta krakkana.
Mig langar að labba Strikið og skoða mannlífið.
Mig langar að stoppa á veitingahúsi og panta góðan mat, smurbrauð og öl eða kaffi og koníak. Mig langar að sitja á útiveitingahúsi með hvítvín og horfa á fólkið streyma hjá,
allra þjóða kvikyndi eru á stjái í borginni.
Mig langar á fornsölurnar, lyktin er óborganleg og grúskararnir eru ótrúlegir.
Mig langar að setjast upp í Metroinn og rúlla af stað.
Mig langar að rölta um Fisketorvet eða Fields bara til að skoða fólkið og í gluggana og setjast svo niður á veitingastað, kannski írsku kránni í Fisketorvet, og njóta þess að hlusta á músík og drekka irish coffee.
Mig langar til Parísar
Mig langar að labba um Latínuhverfið og brosa við ágengum vertveiðurum.
Mig langar að setjast á útikaffihús með Capucchino í stórum bolla (og það er STÓR bolli) , double expresso eða hvítvín og horfa á fólkið streyma hjá. Franskir karlmenn í jakkafötum með bindi, Franskar konur í blómakjólum og hælaháum skóm, listamannaspýrur af öllum tegundum og gerðum.
Mig langar að labba með Signu og horfa á listamennina að störfum og alla grænu kassana með dótinu í, myndir, plaköt, bækur og drasl, og gamla konan með bláa augnskuggann í blómakjólnum, hún var ótrúleg.
Mig langar á útimarkað fullan af antik og glingri sem er hægt að gleyma sér í.
Mig langar inn í alvöru ostabúð og bara njóta með öll vit opin,
og súkkulaðibúðin á St.Germain – ooooooo
Mig langar..........................

miðvikudagur, október 26, 2005

KULDI!!

Mér er illa við kulda - það kemur alltaf betur í ljós á hverju hausti þegar kólnar og ég skrepp saman eins og laufblöðin. Ég vildi vera eins og björninn sem leggst í hýði þegar kólnar og skríður svo úr bóli sínu við hlýnandi vind að vori. Mér er hrikalega illa við snjó - en finnst rigningin góð.
Mér hefur reyndar alltaf fundist haustið ágætis tími en nú kom bara vetur og kuldi allt of fljótt. Ég hef alveg þolað þokkalega við fram yfir jólin - ég er nefnilega hrikalegt jólabarn - en svo eru þessir hund-hund-hundleiðinlegu mánuðir þar á eftir. Ég þoli myrkrið vel - það hefur aldrei angrað mig en það gerir hins vegar kuldinn, ég þarf hita!!!
Af þessu er því nokkuð ljóst að ég bý í röngu landi - kemur alltaf betur og betur í ljós.
Hvar í ósköpunum ætti ég að búa?
Mér hefur oft dottið í hug Frakkland - Suður Frakkland kannski. Krít er alltaf í uppáhaldi líka en þar er vetur í janúar/febrúar, rigning og kuldi (+10°) að sögn heimamanna. Hentaði mér örugglega ágætlega hins vegar. Kannski ég skelli mér á netið og surfi um í leit að hentugu húsnæði á suðrænum slóðum. Mér hlýnar bara við það - er það ekki?

mánudagur, október 24, 2005

80 ára afmæli

Í gær héldum við uppá 80 ára afmælið hans pabba, það var góður dagur hjá okkur og hann var hress og kátur. Tók meira segja tröppurnar í Þjóðminjasafninu með stæl, tvær í einu.
“Lyftur eru bara fyrir gamalt fólk og sjúklinga”, ekki hann.
Þetta var þrautskipulagður dagur hjá honum, fyrst fóru þau upp í kirkjugarð og komu síðan í Bjarmahlíðina. Þar gat hann ekki setið kyrr en skellti sér með mömmu í göngutúr, klæddi sig vel í snjóbuxur og úlpu, trefil og húfu, borgar sig að klæða sig vel, má ekki vera að því að vera veikur.
Síðan settust þau niður augnablik, þau höfðu tekið með sér myndaalbúm og við skoðuðum þau vel og rifjuðum upp gamlar minningar, um bíla og ferðalög. Síðan týndust systkinin inn í mat og við fengum okkur “brunch” saman, hann borðaði lítið því um morguninn hafði hann stígið á vigtina!!!!
Passar vigtina svo hrikalega vel, má ekki stíga um ½kíló. Við málsverðinn færðum við honum koníak sem vafið var innan í Morgunblaðið frá 23.október 1925. Hann hafði látið þau boð út ganga að hann vildi engar afmælisgjafir en koníak klárast alltaf og má bæta á þær birgðar. Við skemmtum okkur vel við að lesa Moggann frá 1925, 1935, 1945 og 1955 – allt 23.október
.

Verulega skemmtilegt að lesa þetta og lýsir tíðarandum mjög vel. Pælið í því hvað dagblöðin eru nauðsynlegur þjóðarspegill, auglýsingarnar eru óborganlegar.

Eftir matinn fórum við á Þjóðminjasafnið – þar vorum við í góða stund – líka verulega skemmtilegt allt saman og rifjaðar upp minningar frá uppvexti og gullárum.
Ég mæli með nýja Þjóðminjasafninu, mér finnast þessar breytingar vera ákaflega vel heppnaðar.
Um fimmleytið komum við aftur í Bjarmahlíðina - þá var Íris búin að leggja á hlaðborð – hnallþórur og brauðréttir, ostar og salöt, Haffi hellti síðan uppá sitt góða kaffi og við áttum notalega stund. Í hópinn bættust síðan barnabörnin – og barnabarnabörn. Þetta var ágætishópur, ekki komust þó allir en það er aldrei hægt að ná öllum saman.

Við sátum yfir þessu hlaðborði, myndum og gömlum Moggum til klukkan átta í gærkvöldi, þetta var notaleg stund og ég held að þau hafi verið orðin þreytt “gömlu” hjónin þegar þau pökkuðu saman á milli 9 og 10 í gærkvöldi og laumuðu sér heim.

Góður dagur að kveldi kominn, tími til að fá sér eitt koníakstaup og lauma sér í háttinn – svona á lífið að vera.

þriðjudagur, október 18, 2005

Systir Emanuelle/pabbi

Ég mætti of seint í vinnuna í morgun ( 08.01 ) og í huganum bað ég systir Emanuelle afsökunar. Það var hún sem kenndi mér að stundvísi er dyggð. Það var bara þannig að þegar ég steig út úr húsinum mínu var ég svo yfir mig glöð yfir veðrinu og hlýjunni sem mætti mér að ég ákvað að labba stóran hring í vinnuna. Þannig að ég fór í kring um Tjörnina og skólann og kom hinum megin að Sólvangsveginum. Þetta var yndislegt, veðrið svo stillt og hlýtt – algjör draumur. Ég sá meira að segja ráðvilltan hamingjusaman járnsmið, eflaust í sömu hugleiðingum og ég. Auðvitað hefði ég átt að vera búin að athuga veðrið og leggja fyrr af stað svo óstundvísin var algjörlega mér að kenna eins og systir Emanuelle mundi segja líka, en á göngunni leiddi ég ekki hugann að klukkunni, leit ekki á hana. Ég er reyndar hætt að ganga með klukku, finnst það vera stressandi fyrirbæri, ég var orðin eins og Gani eða Grjóni (spaugstofan ) – stanslaust að líta á klukkuna. Nú nota ég bara símann ef ég þarf að vita tímann en hins vegar er ég með ótrúlegt innbyggt tímaskyn ( eða þannig ).
Svo er það þetta með símann – hvað er hann annað en stressandi fyrirbæri, en hann er alltaf innan seilingar. Ég tel sjálfri mér trú um að krakkarnir þurfi alltaf að geta náð í mig og svo hringir pabbi alltaf í gemsann, hann er alveg hættur að nota heimasímann. Og hann verður alltaf að geta náð í mig að sjálfsögðu. Stundum hringir hann reyndar án þess að vita af því, ýtir óvart á takkann, og ég heyri þau mömmu tala saman í Fjarðarkaupum. Hann kann ekkert allt of vel á símann sinn blessaður kallinn. Á sunnudaginn næsta verður hann áttræður. Fæddur 1925 og búinn að lifa ótrúlega tíma og upplifa margháttaðar breytingar á tíma og tækni. Samt svo undarlega samstíga öllu því mikilvægasta sbr. símann og tölvuna sem hann keypti sér fyrir nokkrum árum og leikur sér reglulega í.
Það fer ágætlega á því að hugleiðingar sem byrjuðu á systir Emanuelle endi á pabba, þau voru og eru enn góðir vinir. Ég veit að hann á sér enn þann draum að heimsækja systurnar til Köben og hver veit.......... 80 ár er enginn aldur.

föstudagur, október 07, 2005

Ömmuhlutverkið/efasemdir

Nú er Ranka vinkona mín orðin amma - hugsið ykkur það - hún er jafngömul mér. Reyndar er Ína vinkona mín líka orðin amma fyrir rúmu ári síðan. Helga vinkona mín er líka ný orðin amma. Þetta er eins og faraldur í kring um mig.
Það er bara mánuður í þetta nýja hlutverk hjá mér og ég er ekki viss um hvernig það fer mér. Kannski ég verði afleit amma.
Svo er kannski ekki lengur til staðlað ömmuhlutverk. Allar ömmur í dag, amk. nálægt mér, eru útivinnandi og á fullu í social lífi og jafnvel námi. Hvernig er þá ömmuhlutverkið í dag?
Ég þekki svo sem ekki dæmigerðar ömmur eins og maður las um í bókum. Önnur amma mín lést þegar ég var unglingur, hún var útivinnandi lengi og átti alltaf gott kaffibrauð en sinnti að öðru leyti ekki mikið barnabörnum sínum, amk. ekki í minni minningu. Amma Stína var heima að prjóna, alltaf í minningunni, átti forláta prjónavél og prjónaði nærföt úr ull sem stungu ekki, ótrúlegt en satt, og voru ótrúlega hlý. Hún átti líka alltaf gott kaffibrauð - hungangsköku eða smákökur - og síðan var alltaf til gos í útigeymslunni, appelsín og kók í flöskum, ótrúlega spennandi. Hún var oftast hlý og góð en hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum og þær eru margar minnistæðar.
Hún kenndi mér ýmislegt svo sem.
Ég verð aldrei svoleiðis amma en hvernig amma ætli ég verði?
Ég verð örugglega dugleg að kaupa barnaföt - er alveg til í það, kannski dót líka upp að vissu marki, er ekki hlynnt því að börn eigi allt of mikið af drasli.
Ég verð líka örugglega dugleg að kaupa bækur og lesa - tel það eitt mikilvægasta uppeldisatriðið. Ég hef svo sem ekki áhyggjur af þessu - amk. ekki sem valda mér svefnleysi. Þið sitjið bara uppi með mig svona - ég er bara svona, því verður ekki breytt og ef ég verð afleit amma - þá verður bara að hafa það líka.
Ég hef þó reynt að standa mig í þeim hlutverkum sem mér hafa áskotnast - amk. alltaf gert mitt besta - getum við nokkuð farið fram á meira?
................ og þó kannski er alltaf hægt að gera betur!